Bílasala Akraness, Bílás ehf.

 Smiðjuvöllum 17    Sími: 431 2622
 300 Akranesi    Fax: 431 4263
 KT. 670807-1180    Farsími 1: 863 2622
 VSK Nr: 095359    Farsími 2: 893 2621
Bilásbræður

Bílasalan Bílás var bein afleiðing bílaverkstæðis

Bræðurnir Ólafur og Magnús Óskarssynir frá Beitistöðum í Leirársveit höfðu lítil kynni haft af bílaviðskiptum þegar þeir stofnuðu bílasöluna Bílás fyrir 30 árum. Báðir stunduðu þeir iðnnám og lærðu sitt hvora iðngreinina á Akranesi. Þeir voru báðir orðnir fjölskyldumenn og fátt benti til þess að þeir söðluðu um og gerðust bílasalar. Nú þremur áratugum síðar reka þeir myndarlega bílasölu með nýja og notaða bíla, sem gott orð fer af, í rúmgóðu húsi við Smiðjuvelli.

Af bílaverkstæðinu í bílasölu

„Ég lærði bifvélavirkjun hjá Sigurgeir Sveinssyni á Bílaverkstæðinu Brautinni og hóf það nám 1970. Sjö árum seinna stofnuðum við Guðjón Pétursson saman Bílaverkstæði Guðjóns og Ólafs. Síðan varð þróunin sú að fólk var að koma til okkar og spyrja um ástand bíla og fleira. Svo var aðeins um það að við Guðjón keyptum bíla af tryggingafélögum og fleirum sem við gerðum upp og seldum,“ segir Ólafur Óskarsson um fyrstu árin á bílaverkstæðinu. „Þannig kom það upp hjá mér að kannski væri sniðugt að setja upp bílasölu. Þá var Bergur Arinbjörnsson bifreiðaeftirlitsmaður eitthvað að fást við bílasölu hér á Akranesi og Hinrik Haraldsson rakari líka,“ segir Ólafur um það hvers vegna hann ákvað að stofna bílasölu á Akranesi. Hann segir svo eitt hafa leitt af öðru. „Það blundaði einhver „bísnessmaður“ í mér. Ég fór að nefna þetta við Guðjón meðeiganda minn en hann var ekki til í þetta. Þá fór ég að viðra þetta við Magga bróður, sem er lærður smiður en var að vinna í Akraprjóni. Við ákváðum að slá til 1983 og hann fór fljótlega í fullt starf og ég í hlutastarf. Ég var á bílasölunni á kvöldin og um helgar en það var opið fram á kvöld og á laugardögum. Við byrjuðum á að leigja okkur húsnæði á Smiðjuvöllunum 1 og vorum þar í fyrstu.“

Verkstæðishúsið fór í flóði

Þeir Guðjón og Ólafur voru svo óheppnir að missa verkstæðishúsið, sem þeir leigðu á Ægisbraut, í miklu sjávarflóði í byrjun árs 1984 og eftir þriggja mánaða stopp fluttu þeir í annað hús innar og ofar við Ægisbrautina þar sem Bílaverkstæði Hjalta er núna. Þá um vorið fréttu bræðurnir Magnús og Ólafur að Vegagerðin vildi selja húsnæði við Þjóðbraut. Þeir höfðu strax áhuga á að kaupa vesturenda hússins en í ljós kom að Vegagerðin vildi bara selja allt húsið svo þeir létu slag standa og keyptu. Þar með var Bílasalan Bílás komin í eigið húsnæði. Þangað fór líka Bílaverkstæði Guðjóns og Ólafs þar til búið var að byggja iðngarðana við Kalmansbraut að verkstæðið flutti þangað og Guðjón ásamtHaraldi Aðalsteinssyni keyptu hlut Ólafs í bílaverkstæðinu, sem eftir það hefur heitið Ásinn. Hluta hússins við Þjóðbraut keypti svo Sveinn V. Garðarsson undir Eldvarnarþjónustuna sem Böðvar Jóhannsson eignaðist síðar. Böðvar var áfram í húsnæðissamvinnu við Bílásbræður þegar flutt var í núverandi hús við Smiðjuvelli. „Við vorum með Bílás við Þjóðbrautina frá 1984 til 2005. Þá kom SS byggingaverktaki, keypti af okkur lóðina og húsið og byggði átta hæða blokk á lóðinni.“

Fyrsta salan hálfgert klúður

„Óli plataði mig eiginlega í þetta,“ segir Magnús um það þegar bróðir hans orðaði það við hann að þeir stofnuðu bílasölu. „Ég var þá að vinna í Akraprjóni við smíðar og ýmislegt sem til féll enda er ég lærður húsasmiður. Við bræðurnir lærðum sitt hvora iðnina þarna í sitt hvoru húsinu því ég lærði hjá Trésmiðju Sigurjóns og Þorbergs sem var á bak við bílaverkstæðið Brautina. Ég kláraði húsasmíðina 1979 og fór yfir til Akraprjóns 1981. Fyrst eftir að ég að byrjaði á bílasölunni minnkaði ég vinnuna í Akraprjóni við mig og var í hlutastarfi þar.“ Magnús segir það hafa verið mikla breytingu að vinna allt í einu við bílasölu. „Ég man að það tók mig hálfan mánuð að selja fyrsta bílinn. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þá sölu, hún var hálfgert klúður og ekkert sérstök viðskipti,“ segir Magnús og hlær. Hann er ekki á því að eitthvað hafi verið í uppeldinu í sveitinni á Beitistöðum í æsku sem benti til þess að þeir yrðu bílasalar. „Nei, alls ekki. Þetta er bara svona að maður fer kannski ekki alveg þá leið sem ætlað var í upphafi. Auðvitað kynntumst við tækjum og bílum í sveitinni og gátum bjargað okkur með viðgerðir en meira var það ekki. Annars hef ég aldrei verið með neina sérstaka bíladellu sjálfur og á oftast sama heimilisbílinn í mörg ár. Í upphafi bílasölunnar þorði maður auðvitað ekki að hætta annarri vinnu strax því það var ekki alltaf útborgað hjá bílasölunni í fyrstu. Fyrst vorum við eingöngu með notaða bíla og umboðin sáu sjálf um að selja þá bíla sem þau tóku upp í nýja. Viðskiptin voru margs konar í upphafi.“

Hjónarúm upp í bílakaup

Magnús segir ýmislegt hafa verið boðið í bílaskiptum. „Ég man eftir einum sem bauð lítið notað hjónarúm upp í bílakaup. Eftir að hafa skoðað það aðeins ráðlagði ég nú seljandanum að taka frekar hjónarúmið en víxil frá viðkomandi. Það væri öruggara. Enda fór það svo og báðir voru ánægðir með viðskiptin. Það var líka algengt að ávísanir væru stílaðar fram í tímann og víxlarnir voru einn helsti gjaldmiðillinn. Þetta hefur gjörbreyst og bílafjármögnun orðið auðveldari á síðustu árum og er enn. Nú eru dæmi um að kaupandi geti bara dreift bílverðinu að hluta niður á greiðslukortið sitt. Sérstaklega ef það eru ódýrir bílar.“

Seldu 17 Lödur í einni söluferð

Fljótlega eftir stofnun tóku bræðurnir söluumboð fyrir B&L. „Þá fórum við að selja Lödur um allt Vesturland og seldum geysilega vel. Ég man eftir að við fórum einu sinni í söluferð vestur á Snæfellsnes og enduðum í Dölunum. Einn karlinn þar hafði áhuga á að kaupa Lödu sagðist ekki komast til okkar að ná í nýjan bíl fyrr en eftir sauðburð. Þannig að úr varð að hann fékk sýningarbílinn sem við vorum á. Við vorum á nokkrum bílum en sá sem keyrði seldu Löduna varð að húkka sér far heim. Karlinn borgaði í reiðufé og svo kom í ljós að við höfðum látið hann borga of mikið og endurgreiddum honum. Hann hafði hins vegar ekkert tekið eftir því. Við förum enn í svona söluferðir en metið hér áður fyrr var að við seldum 17 Lödur í einni ferðinni. Ég man að þegar við vorum komnir í Borgarnes vildu þeir hjá B&L snúa okkur við vegna veðurs en við neituðum og þetta varð afraksturinn.“

Skessuhorn, 28. maí. 2013